Fréttasafn

Image
gistinótt
Gistinótt Zelsíuz 2025
Zelsíuz stóð fyrir árlegri gistinótt aðfaranótt 30. desember sl. þar sem boðið verður upp á spennandi og fjölbreytta dagskrá fyrir ungmenni.

Gistinótt Zelsíuz var haldin aðfaranótt 30. desember sl. og tókst hún einstaklega vel. Mikil eftirvænting ríkti meðal ungmenna og skapaðist strax frábær stemning. Þátttaka var mjög góð og ungmennin sýndu bæði ábyrgð og góða hegðun alla nóttina sem gerði viðburðinn bæði öruggan og skemmtilegan.

Eftir móttöku og stuttan kynningarfund hófst dagskráin af fullum krafti. Ungmennin tóku þátt í lazertag í íþróttahúsinu í Vallaskóla þar sem mikið var hlegið og keppt af krafti í góðri samkeppni. Síðan var snætt saman og þátttakendur nutu pizzna og samveru áður en haldið var í sund.

Hápunktur næturinnar var sundlaugapartýið með DJ Sjúkum, þar var dansað, synt og sprellað fram eftir nóttu. Stemningin var létt og skemmtileg og greinilegt að margir sköpuðu minningar sem munu lifa lengi.

Þegar hópurinn kom aftur í Zelsíuz um nóttina biðu heitar samlokur og vöfflur sem féllu afar vel í kramið. Eftir það tóku við smiðjur þar sem ungmennin gátu valið á milli ýmissa verkefna, meðal annars brjóstsykursgerðar, bolagerðar, rúntferðar, dagblaðahokkís, markmiðasetninga og síðan var skreytt hlífðargleraugu fyrir áramótin sem við fengum gefins frá björgunarfélagi Árborgar. Margir nýttu tækifærið til að spjalla, hlæja og njóta samfélagsins fram á morgun.

Í lok nætur tóku allir þátt í tiltekt og sýndu þar góða ábyrgð á sameiginlegu rými. Síðustu þátttakendur héldu heim um kl. 07:00 – þreyttir en ánægðir eftir langa og viðburðaríka nótt.

Starfsfólk Zelsíuz er afar stolt af ungmennunum fyrir frábæra þátttöku og jákvæða framkomu. Gistinótt Zelsíuz 2025 verður seint gleymd – og við hlökkum strax til næstu!